Talning atkvæða um verkfallsaðgerðir starfsmanna hjá Isavia hefur farið fram. Niðurstöður úr atkvæðagreiðslunni eru á þann veg að 88% sögðu já, nei sögðu 9%.
Auðir og ógildir voru 3%.
Á kjörskrá voru 424 og af þeim kusu 365, eða 86%. Af þessu er ljóst að gripið verður til verkfallsaðgerða þann 8. apríl næstkomandi, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.
Verkfallsaðgerðirnar sem samþykktar voru:
Á tímabilinu frá kl. 04:00 til kl. 09:00, þriðjudaginn 8. apríl 2014, munu allir félagsmenn FFR, SFR og LSS hjá Isavia ohf , leggja niður störf.
Á tímabilinu frá kl. 04:00 til kl. 09:00, miðvikudaginn 23. apríl 2014, munu allir félagsmenn FFR, SFR og LSS hjá Isavia ohf , leggja niður störf.
Á tímabilinu frá kl. 04:00 til kl. 09:00, föstudaginn 25. apríl 2014, munu allir félagsmenn FFR, SFR og LSS hjá Isavia ohf , leggja niður störf.
Allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna FFR um verkfallsaðgerðir gegn Isavia hefst í dag.
Allir félagsmenn Isavia eiga kost á að greiða atkvæði. Atkvæðagreiðsla á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Vestmannaeyjum fer fram hjá trúnaðarmönnum féagsins. Í Keflavík hefst atkvæðagreiðsla eftir baráttufund í Andrews leikhúsi á Ásbrú kl. 17:30 og í Reykjavík eftir baráttufund í bíósal Hótel Natura á morgun, föstudag kl. 12:00.
Einnig verður hægt að kjósa hjá trúnaðarmönnum félagsins. Kosningu lýkur á sunnudag. Talið verður á mánudag og þá verða úrslit birt.
Félag flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR), SFR stéttarfélag í almannaþjónustu og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hafa verið í samningaviðræðum við Isavia undanfarnar vikur um gerð nýs kjarasamnings. Félögin vísuðu málinu til ríkissáttasemjara eftir að fullreynt var að ekki næðist saman milli félaganna og Isavia. Undir handleiðslu ríkissáttasemjara hefur verið unnið að samningsgrunni sem félögin töldu að hægt væri að byggja hugsanlegar viðræður og samkomulag á. Í dag hefur félögunum hins vegar borist fréttir af því frá viðsemjanda að til þess að vinna frekar á þeim samningsgrunni yrði sett það skilyrði að samningurinn yrði lengdur verulega eða um 7 mánuði, sem þýddi að samningstíminn væri þá orðinn 19 mánuðir. Þetta skilyrði er algjörlega óásættanlegt að mati samninganefnda félaganna. Staðan er því sú að kjarasamningsviðræðurnar eru komnar í algjöran hnút og því hafa samninganefndir félaganna lagt til við stjórnir þeirra að efna til allsherjar atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum hjá Isavia um boðun aðgerða.
Boðað er til baráttufundar í Andrews leikhúsinu á Ásbrú fimmtudaginn 27.mars n.k. kl. 17:30 og í Reykjavík í bíósal Hótel Natura, áður Hótel Loftleiðir kl. 12:00 föstudaginn 28.mars n.k.
Búið er að opna fyrir umsóknir á orlofshúsum félagsins fyrir sumarið 2014. Farið er inn á orlofsvefinn og sótt um þar rafrænt.
Umsóknarfrestur er til miðnættis sunnudaginn 6.apríl n.k.
Úthlutað er eftir punktakerfi og er sama verð og í fyrra 22.000.- kr fyrir vikuna.
Viðræðum í kjaradeilu FFR, SFR og LSS við SA/Isaiva ohf verður framhaldið eftir helgi. Samninganefndir félaganna hittast á þriðjudag.
Á fundi með Samtökum atvinnulífsins og Isavia ohf hjá Ríkissáttasemjara í morgun lagði SA fram tillögu í kjaraviðræðunum. Þeirri tillögu var svarað með gagntilboði frá FFR, SFR og LSS.
Næsti fundur í deilunni er á fimmtudaginn kl. 13:00.