Almenna reglan er sú að starfsmenn ríkisins aðrir en embættismenn eiga rétt á launum samkvæmt kjarasamningi. Sjá 9. og 47. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Ríkið gerir kjarasamninga á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, annars vegar og laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, hins vegar. Fjármálaráðherra fer með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð kjarasamninga. Hann skipar samninganefnd til að annast samninga fyrir sína hönd. Hún starfar í nánum tengslum við starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis.

Hvert stéttarfélag fer með eigið samningsumboð nema það kjósi að hafa samflot eða framselji samningsumboðið til heildarsamtaka sinna. Þau stéttarfélög sem ríkið mun semja við á þessu samningstímabili eru um það bil 130 talsins.

Kjarasamningar ríkisins eru þannig uppbyggðir að í miðlægum kjarasamningi er samið um tiltekið launabil fyrir hvert starfsheiti og starfsaldurshækkanir ráðast einungis af lífaldri starfsmanna. Í miðlæga kjarasamningnum er ekki gengið frá fullnaðarforsendum launasetningar. Lokahönd er lögð á kjarasamningsgerðina með gerð stofnanasamninga sem eru hluti af kjarasamningum. Stofnanasamningar eru sérstakir samningar milli stofnana og stéttarfélaga um aðlögun tiltekinna þátta kjarasamninga að þörfum stofnana og starfsmanna með hliðsjóð af eðli starfsemi, skipulagi og/eða öðru því sem gefur stofnunum sérstöðu.

Kjarasamningagerð ríkisins hefur verið með þessu sniði allt frá árinu 1997 þegar samið var við fyrsta stéttarfélagið um svokallað nýtt launakerfi og eru aðilar tiltölulega sáttir við þessa útfærslu. Nú hefur verið samið um slíkt launakerfi við flest öll stéttarfélög starfsmanna ríkisins.

Í þessu kerfi er miðstýring launaákvarðanna takmörkuð eins og kostur er. Þess í stað er, eins og áður sagði, samið um tiltekið launabil fyrir hvert starfsheiti í miðlægum kjarasamningi. Stofnanir hafa síðan tækifæri til að umbuna starfsmönnum sínum á grundvelli mats á starfinu sjálfu eða persónubundnum verðleikum starfsmannsins. Þetta er útfært í stofnanasamningum. Þá hafa ákvarðanir um vinnutíma verið rýmkaðar, t.d. með þeim hætti að heimilt er að semja um rýmkun dagvinnutíma á virkum dögum.