Fréttir

Gengið hefur verið frá samkomulagi um endurskoðun á viðræðuáætlun FFR við SA/Isavia. 

Í samkomulaginu kemur fram að aðilar stefni á að ná samningum fyrir 15. september. Þar er einnig fjallað um skipulag viðræðna og vinnubrögð. Viðræður liggja niðri um þessar mundir en verða teknar upp að nýju í ágúst. 

Aðilar sammælast um að á gildistíma framlengdrar viðræðuáætlunar ríki friðarskylda. Með hliðsjón af því svo og þess að aðilar eru sammála um að sá tími sem var ætlaður til viðræðna um endurnýjun kjarasamnings hafi verið vanmetinn.

Aðilar eru ásáttir um að innágreiðsla/fyrirframgreiðsla að upphæð 105.000 kr. verði greidd hverjum fastráðnum starfsmanni miðað við fullt starf. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 31. ágúst 2019. 

Greiðslan kemur til útborgunar 1. ágúst 2019. 

Það er sameiginlegur skilningur aðila að ofangreind fjárhæð sé hluti fyrirhugaðra launabreytinga hins endurnýjaða kjarasamnings og verði metin sem hluti kostnaðaráhrifa hans.

 

Samninganefnd FFR

Við vekjum athygli ykkar á því að næsta vika er laus í Vestmannaeyjum. Örugglega einhver sem getur nýtt sér það í þeirri fádæma veðurblíðu sem nú gengur yfir Suðurlandið. Húsið losnar meira að segja laugardaginn 15. júní ef einhver vill nýta sér það og ná rúmlega vikudvöl en greiða einungis vikuleigu fyrir!

Sumarkveðjur frá orlofshúsakónginum

Félaginu hafa borist fyrirspurnir af stöðu viðræðna félagsins við SA/Isavia og er það okkur ánægja að segja frá því að viðræður eru í fullum gangi um þessar mundir.

Þegar höfum við setið 7 samningafundi og góður gangur er í viðræðum. Næsti fundur er fyrirhugaður á miðvikudaginn.

Samninganefnd FFR

Í morgun voru haldnir starfsmannafundir á öllum starfsstöðvum Isavia þar sem kynntar voru aðgerðir Isavia til þess að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi. 

Eins og alkunna er þrengir að rekstri Keflavíkurflugvallar nú um mundir og dregið hefur verulega úr farþegafjölda sem um hann fer. Af þessum sökum sér Isavia sér ekki fært annað núna en að fækka og/eða breyta stöðugildum nokkurra starfsstöðva sem undanfarin misseri hafa vaxið ört. Breytingarnar hafa áhrif á 34 starfsmenn Isavia. Samhliða er unnið að breytingum á vaktakerfum til þess að laga þau betur að breyttum álagstímum flugstöðvarinnar.  

Félag flugmálastarfsmanna ríkisins harmar mjög þessar aðstæður og sérstaklega tíðindin af atvinumissi félagsmanna okkar og annarra stéttarfélaga.

Við viljum hvetja félagsmenn okkar sem breytingarnar hafa áhrif á að hafa samband við félagið og kynna sér þau réttindi sem þeir hafa áunnið sér hjá félaginu og nýta sér þá ráðgjöf sem Isavia hefur boðið þeim.

Stjórn FFR

Kæru félagsmenn,

það eru góðar fréttir frá Tenerife sem við færum ykkur í dag. Framkvæmdum er að mestu lokið og íbúðin alveg að verða tilbúin fyrir fyrstu gestina. Verktakar eiga einhver smáatriði eftir og nú er verið að kaupa síðustu innanstokksmunina en íbúðin er vel íbúðarhæf á þessu stigi málsins. Hún er hin glæsilegasta og við hlökkum mikið til að heyra frá gestunum hvernig þeim líkar dvölin. Fyrstu gestirnir eru væntanlegir eftir tvær vikur og við vonum innilega að við verðum komin með nettengingu þá. Nettengingin ætlar að reynast okkur fjötur um fót en hún veltur á því að spænskir bankamenn samþykki að stofna bankareikning í nafni FFR og það ætlar að reynast snúið. Við látum ykkur vita um leið og málið verður í höfn en þið megið gjarnan búa ykkur undir að íbúðin bjóði ekki upp á nettengingu og kannið endilega stöðu ykkar með netnotkun erlendis á ykkar tækjum áður en þið farið út. 

Við vorum að setja inn nýjar myndir á facebook síðu félagsins fyrir áhugasama Félag flugmálastarfsmanna ríkisins.

Sumarleigan fer vel af stað og allmargar vikur þegar farnar en eitthvað er enn í boði svo við hvetjum ykkur til þess að kíkja endilega á orlofsvefinn og kanna hvort þið getið nýtt ykkur einhverjar lausar vikur á orlofstímanum í sumar. Nú ef þið finnið ekki heppilegar vikur á þeim tíma hefur nú þegar verið opnað á vetrarleiguna og talsvert eftir af spennandi vikum vilji menn komast í smá vetrarsól og slökun á eyjunni góðu.

Endilega hikið ekki við að hafa samband ef þið hafið einhverjar spurningar. 

Hlýjar Tenerife kveðjur,

Stjórnin

 

Kæru félagsmenn,

Fimmtudaginn 18. apríl klukkan 12:00 opnum við fyrir sumarleigu nýju íbúðar félagsins á Tenerife. Um leið opnum við einnig á vetrarleiguna og hefjum forúthlutun jóla/áramóta og páska.

Opin sumar- og vetrarleiga merkir að reglan fyrstur kemur, fyrstur fær gildir. Þú skráir þig inn á orlofssíðu félagsins, finnur þér laust heppilegt tímabil og bókar (LAUS TÍMABIL). Við bókun hefur þú svo sólarhring til þess að greiða leiguna. Að sólarhring liðnum verður umsókn eytt nema hún hafi verið greidd. 

Félagið hefur þá reglu að endurgreiða ekki leigu sem hefur verið greidd. Ef hætta þarf við ferðaplön t.d. vegna veikinda er mönnum bent á að hafa samband við sitt tryggingafélag.

Athugið að áfram verður íbúðin leigð frá miðvikudegi til miðvikudags og yfir sumartíma er íbúðin leigð í tvær vikur í senn. Yfir vetrartíma hafa félagsmenn val um eina eða tvær vikur í senn í leigu. Leiguverð er alltaf 35.000 kr. vikan auk þrifagjalds sem félagsmaður greiðir sjálfur á Tenerife. Leiga kostar 36 punkta yfir sumartíma, jól/áramót og páska en engir punktar eru teknir fyrir opna vetrarleigu.