Fréttir

Félagsmönnum er bent á að nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um vikuleigu orlofshúsa félagsins sumarið 2017.

Til þess að sækja um vikudvöl í orlofshúsi félagsins skrá félagsmenn sig inn á orlofsvef Félags Flugmálastarfsmanna ríkisins og velja flipann UMSÓKN SUMAR.

Félagsmenn FFR geta sent inn allt að 5 umsóknir hver og er boðið upp á að leigja hús í Munaðarnesi, Vestmannaeyjum og íbúð á Akureyri.

Við vekjum athygli á því að leigutími er mánudagur til mánudags. Leiguverð er óbreytt 23.000 kr. fyrir vikuleigu, auk 24 punkta af punktainneign félagsmanns.

Umsóknarfrestur er til og með 17. apríl og fer úthlutun fram þann 18. apríl.

 

Aðalfundur FFR verður haldinn fimmtudaginn 30. mars 2017, kl. 18:00 á Radisson Inn hotel, Hafnargötu 57, Keflavík.

Við höfum stofnað viðburð á fésbókarsíðu félagsins vegna aðalfundar og hvetjum menn til þess að skrá þar mætingar til að auðvelda okkur innkaup fyrir fundinn!

Í dag er kjarasamningur FFR við SA/Isavia fallinn úr gildi og vinnur samninganefnd félagsins um þessar mundir að nýjum samningi fyrir félagsmenn.   

Við hvetjum alla félagsmenn til þess að skrá viðburðinn inn á dagatalið og fjölmenna á aðalfundinn. 

Stjórn FFR

Fundarboð aðalfundar FFR 2017

Hinn 13. desember árið 1946, komu um 26 manns saman á Hótel Winston kl 17:30. Tilefnið var að stofna starfsmannafélag/stéttarfélag. Upphafleg lög félagsins voru nokkru frábrugðin lögum félagsins í dag og var tilgangur stofnunar félagsins að auka samhug og samstarf í öllum greinum.  
Frá upphafi var mikil gróska í félaginu og þann 26. febrúar 1947 (tveimur og hálfum mánuði eftir stofnun félagsins) var fyrsti aðalfundur þess haldinn. 
Þá var skýrt frá því að FFR hefði staðið fyrir áramótadansleik ásamt tveimur skemmtikvöldum með ágætum árangri! Á fyrstu árum félagsins reyndi strax á mikilvægi félags sem FFR og ber þá helst að nefna hópuppsagnir, skipulagsbreytingar og húsnæðisskort. Frá upphafi var félagslífið með ágætum. 
Með lögum nr. 55 frá 28. apríl 1962 fengu opinberir starfsmenn samningsrétt en þá eingöngu til handa heildarsamtökum BRSB. Í kjölfarið hófst kjarabarátta félaganna við fjármálaráðherra f.h. ríkisins. Þannig var svo málum háttað í um áratug.
Á árunum 1968-1969 var mikil vinna lögð í að framkvæma starfsmat fyrir starfsmenn og stóðu vonir til þess að starfsmatið myndi auðvelda samningagerð og gerði hana réttlátari. 
Starfsmatið átti að vera til hliðsjónar við eina samningsgerð en því var hafnað af ríki og sveitarfélögum og þótti mönnum því öll sú vinna fara fyrir lítið. Starfsþættir sem teknir voru til greina við gerð starfsmatsins voru: menntun, starfsþjálfun, sjálfstæði/frumkvæði, tengsl, ábyrgð, reynsla, vinnuskilyrði.
 
Í tilefni af 70 ára afmæli félags flugmálastarfsmanna ríkisins í dag, þann 13. desember 2016 hefur stjórn félagsins ákveðið að bjóða félagsmönnum að gæða sér á kökum á starfsstöðvum þeirra.   
Með hverju starfsári sem líður, er vöxtur á öllum sviðum fluggeirans, það skilar sér í auknum fjölda félagsmanna ásamt fjölda nýrra starfa/starfsheita. Félagsmenn FFR taka nýjum áskorunum daglega við það eitt að halda flugsamgöngum gangandi. 
 
Stjórn FFR hefur þegar hafið vinnu við kröfugerð vegna komandi kjarasamnings við SA/Isavia. Núverandi kjarasamningur er í gildi til 28. febrúar 2017. Framundan er því ljóst að reyna muni á samstarf og samhug félagsmanna FFR og ekki síður Isavia.
 
Kæru félagsmenn FFR, til hamingju með 70 ára afmælið!
 
Helgi Birkir Þórisson
Formaður FFR.

Ágæti félagsmaður,

Laugardaginn 19. nóvember 2016 kl. 11:00 boðar stjórn FFR til vinnufundar allra félagsmanna vegna komandi kjarasamningaviðræðna. Fundarstaður verður í Flugröst, Nauthólsvegi 99, Reykjavík.

Á fésbókarsíðu FFR hefur verið stofnaður viðburður sem félagsmenn eru hvattir til þess að finna og skrá mætingu á vinnufundinn. Afar mikilvægt er að öll starfsheiti félagsmanna okkar hjá Isavia hafi fulltrúa á fundinum.

Við hvetjum alla starfshópa til þess að funda með sem flestum starfsfélögum sínum fyrir sjálfan vinnufundinn til þess að undirbúa skilvirkar umræður og hópavinnu á sjálfum vinnufundinum.

Á vinnufundinum munum við skipta fundargestum í hópa miðað við starfssvið og að vinnu lokinni vonumst við til þess að hafa kröfugerðir hvers starfshóps tilbúnar fyrir næstu viðræður.

Félagsmenn eru því hvattir til þess að kynna sér vandlega núverandi kjarasamning og átta sig vel á því hvaða hliðar kjaramálanna mættu betur fara. Áríðandi er að móta skýra kröfugerð áður en viðræður sjálfar hefjast og til þess er innlegg allra félagsmanna bráðnauðsynlegt. Félagsmenn okkar mynda stóran og fjölbreyttan hóp starfsmanna Isavia og er það ætlun okkar að ná til þeirra allra með þessum vinnufundi. Trúnaðarmenn hvers hóps eru hvattir til þess að taka forystu innan hópsins, leiða umræður og fundi og hvetja alla til þátttöku.

Þeir félagsmenn sem staðsettir eru á landsbyggðinni eru beðnir um að hafa samband við stjórn vegna ferðakostnaðar.

Með von um góðar undirtektir,

Helgi B. Þórisson, formaður FFR

KVENNAFRÍ 2016 – KJARAJAFNRÉTTI STRAX!

Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:38 mánudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Austurvelli, kl. 15:15 undir kjörorðinu KJARAJAFNRÉTTI STRAX!

Meðal atvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðal atvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri meðaltal atvinnutekna. Samkvæmt því eru konur búnar að vinna fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38.

Þann 24. október árið 1975 lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Árið 2005 héldum við upp á kvennafrídaginn í annað sinn og konur gengu í tugþúsunda talið útaf vinnustað á þeirri mínútu þegar þær hættu að fá borgað fyrir störf sín miðað við karla. Þá gengu konur út klukkan 14:08. Árið 2010 gengu konur út klukkan 14:25. Nú göngum við út klukkan 14:38. Við höfum grætt hálftíma á ellefu árum. Tæplega þrjár mínútur á hverju ári. Með þessu áframhaldi þurfum við að bíða í 52 eftir að hafa sömu laun og sömu kjör og karlar, til ársins 2068! Það er óásættanlegt!

Fylgstu með á www.kvennafri.is og www.facebook.com/kvennafri

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, fer yfir stöðuna í lífeyrismálum í bréfi til félagsmanna aðildarfélaga bandalagsins. BSRB hefur, eins og önnur heildarsamtök opinberra starfsmanna, skrifað undir samkomulag við ríki og sveitarfélög um framtíðarfyrirkomulag lífeyrismála.

Eins og fram hefur komið hér á vef BSRB og annarsstaðar tryggir samkomulagið að réttindi þeirra sem greitt hafa í A-deildir lífeyrissjóða opinberra starfsmanna breytist ekki. Þá hefur einnig komið fram að ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að leiðrétta launamun á milli opinbera markaðarins og hins almenna.

Í bréfi sínu fer Elín yfir hvernig ferill þessa flókna og viðamikla máls hefur verið innan bandalagsins. Hún segir að frá upphafi hafi verið fjallað um málið á lýðræðislegan hátt innan bandalagsins. Þannig hafi formenn allra aðildarfélaga bandalagsins samþykkt það árið 2010 að leggja í þessa vegferð. Málið hafi verið tekið upp á öllum fundum og þingum síðan. 

Formannaráð BSRB, sem er æðsta vald bandalagsins milli þinga, tók málið fyrir á fundi ráðisins í byrjun september. Ráðið samþykkti að fela forystu BSRB að skrifa undir samkomulagið og var það gert síðastliðinn mánudag.

Bréf formanns BSRB má lesa í heild sinni hér að neðan.

Bréf formanns BSRB


Kæri félagi

BSRB hefur, ásamt öðrum heildarsamtökum opinberra starfsmanna, skrifað undir samkomulag við ríki og sveitarfélög um framtíðarfyrirkomulag lífeyrismála.

Nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga varðandi samkomulagið:

  • Þeir sem þegar greiða í A-deildir lífeyrissjóða opinberra starfsmanna, LSR eða Brú, munu ekki finna fyrir neinni breytingu. Öll þeirra réttindi eru tryggð með samkomulaginu.
  • Þeir sem byrja að greiða í fyrsta skipti í sjóðina eftir 1. janúar munu ganga inn í nýtt lífeyriskerfi þar sem ávinnsla verður aldurstengd, eins og verið hefur á almenna markaðinum í um áratug.
  • Lífeyrisaldur opinberra starfsmanna hækkar úr 65 árum í 67. Þeir sem þegar greiða í sjóðina geta eftir sem áður hætt störfum 65 ára án þess að réttindin skerðist. Þeir geta líka valið að vinna til 67 ára aldurs og bæta með því lífeyrisréttindi sín.
  • Ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að til að leiðrétta launamun á milli opinbera markaðarins og hins almenna. Sú vinna á að taka að hámarki 10 ár.


Vinna við heildarendurskoðun á lífeyriskerfinu hefur verið í gangi frá árinu 2009 þegar aðilar á vinnumarkaði og stjórnvöld gerðu stöðugleikasáttmála. Það er afar mikilvægt að nú hafi náðst samkomulag um nýtt lífeyriskerfi fyrir allt launafólk á Íslandi. Það er hluti af því markmiði að ná sátt á vinnumarkaði og bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga.

Markmið BSRB og annarra heildarsamtaka opinberra starfsmanna var frá upphafi að tryggja óbreytt réttindi allra sem þegar greiða í opinbera lífeyrissjóði, en einnig að gæta að réttindum framtíðarfélaga í sjóðunum. 

Öll þau markmið sem lagt var upp með við upphaf viðræðna náðust fram í viðræðum við ríki og sveitarfélög. Að engu var anað í viðræðunum og áherslan alltaf sú sama, að gæta hagsmuna okkar félagsmanna í hvívetna.

Frá upphafi hefur verið fjallað um málið á lýðræðislegan hátt innan BSRB. Formenn allra aðildarfélaga bandalagsins samþykktu formlega árið 2010 að leggja af stað í þessa vegferð. Fjallað hefur verið á tveimur þingum bandalagsins, auk þess sem málið hefur verið reifað á fundum formannaráðs og stjórnar reglulega. Alltaf hefur niðurstaðan verið sú sama. Forystu BSRB hefur verið falið að halda viðræðum áfram á þeim grunni sem lagt var upp með.

Formannaráð BSRB, sem er æðsta vald þess milli þinga, fjallaði um málið á fundi ráðsins sem fór fram í Reykjanesbæ í byrjun september. Þar var farið ítarlega yfir niðurstöðu í samningaviðræðum opinberra starfsmanna við ríki og sveitarfélög. Formannaráðið samþykkti að fela forystu BSRB að skrifa undir samkomulagið og var það gert síðastliðinn mánudag. 

Vinnunni er ekki lokið þó samkomulagið hafi verið undirritað. Ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að meta heildstætt launamun á opinberum markaði og hinum almenna. Þá hafa viðsemjendur okkar skuldbundið sig til að verja þeim fjármunum sem þarf til að launamuni milli markaða verði útrýmt á næstu tíu árum. BSRB mun fylgja þessari vinnu vel eftir og tryggja að leiðrétting á launum opinberra starfsmanna nái fram að ganga.

Nánar er fjallað um samkomulagið á vef BSRB, www.bsrb.is og verður frekara kynningarefni útbúið á næstu dögum og vikum. Við hvetjum við þig til að kynna þér málið.


Með kveðju,

Elín Björg Jónsdóttir
Formaður BSRB